Það situr enn í mér athugasemd inn á ónefndri Facebook grúbbu þar sem spurt var hvað verð hefði eiginlega með “marketing” að gera. Ég nánast táraðist af blöndu hláturs og vonbrigða.
[Hér er nauðsynlegt að minna á að p-éin eru sjö, ekki fjögur. Og vinsamlegast, þetta heita markaðsráðar, ekki söluráðar.]
En kannski er þetta ekki rangt hjá þessum einstaklingi. Snögg yfirferð yfir það markaðsfræðilega nám sem er í boði hérlendis undanskilur þetta allra mikilvægasta p. Þá er kannski spurning hvort þetta sé ekki nægjanlega vel útskýrt í klassískum markaðsfræði bókmenntum? Held ekki. En tek samt fram að td nemendur í viðskiptafræði læra allt sem ég tel nauðsynlegan grunn til að átta sig almennilega á mikilvægi verðsins og kannski því allra mikilvægasta, verðmyndun.
Ef markaðsfræði væri hús þá er hagfræði grunnurinn sem markaðsfræði byggir á og verð þar sérstaklega.
Því skiptir máli að vera vel að sér í hagfræði, rekstrarbókhaldi og skilja muninn á föstum og breytilegum kostnaði. Vera ekki úti á túni þegar framlegð er nefnd á nafn og vera ekki feimin við að rífa upp töflureikninn og reikna sig í gegnum þetta.
Ekki gleyma, þetta er mín skoðun en þar sem verð er óneitanlega mikilvægur hluti markaðsfærslunnar og oft talað um að þetta sé það eina sem býr ekki til kostnað. Hin pé-in séu í reynd kostnaður.
Þegar ég fer að ræða þetta í kennslu þá ýmist ræði ég þetta í tengslum við markaðsráðana eða vörumerki, tek ég þá alltaf sama dæmið sem að mínu viti sýnir styrk þessarar tölu.
“Ég er með Rolex úr til sölu á 10.000kr. Hver vill kaupa það?”
Ekki oft sem einhver gefur sig fram, sérstaklega þegar ég fer að lækka verðið til þess að draga fram mögulegan kaupanda. Undantekningarlaust draga þau í efa gæði vörunnar og jafnvel lögmæti þess. Einhverjir hafa gengið svo langt að saka mig um að selja falsaða hönnunarvöru. En þetta kannski sýnir styrkinn. Þarna er vara sem tilheyrir “high-end” vörumerki á verði sem kveikir ekkert nema flögg hjá þeim sem það er boðið.
Verð er öflugt. Það gefur til kynna möguleg gæði vörunnar, flaggar jafnvel hversu mikið stöðutákn varan sé og ekki síst möguleg vísbending um styrk vörumerkisins.
Á endanum er það samt svo að óháð því hvar varan er framstillt, auglýst eða þjónustuð, ef markhópurinn sér lítið virði í vörunni vs þeim fórnarkostnaði sem felst í að kaupa vöruna þá mögulega kaupa hana fáir.
Á endanum snýst þetta um að vera með rétta vöru, á réttum tíma, á réttum stað og á réttu verði fyrir þann markhóp sem varan er ætluð og að virðið sé umfram fórnina.....krónurnar.
Þannig að stutta svarið er.....verð er lykillinn að hinum pé-unum.
Comments